Í fréttum er þetta helst

miðvikudagur, október 11, 2006

Komin á klakann

Nú höfum við sagt skilið við München og erum flutt á klakann. Eins og flestir vita þá er Maggi farinn að vinna hjá Microsoft á Íslandi og ég er að leita mér að vinnu þessa daganna. Ég hef nú reyndar verið að kenna í forföllum í Ölduselsskóla í Breiðholti og finnst það bara mjög skemmtilegt, hélt reyndar að ég yrði nú aldrei kennari.
Svo er ég komin með þetta fína verkstæði í kjallaranum hjá mömmu og pabba og er að vinna þar þegar ég er ekki að kenna.
Við erum búin að finna okkur íbúð í Árbænum, nánar tiltekið í Rauðás og áætlum að flytja um næstu helgi. Ég hlakka svo til að fara að koma mér fyrir í sér íbúð með mitt dót. Það er nú bara þannig að þó maður sé eins og á 5 stjörnu hóteli hjá mömmu og pabba þá er svo erfitt að flytja aftur heim til þeirra þegar maður er orðinn vanur því að vera útaf fyrir sig.
Ég ætla nú ekki að lofa því hvenær ég blogga næst því ég hef verið alltof löt við það.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Nokkrar myndir frá Kalí

Set hérna inn nokkrar myndir frá því að Ingibjörg kom út til Kaliforníu í lok júní. Þessar eru teknar í Los Angeles og The OC.

Heitt í bolunum

Þessa vikuna erum við skötuhjúin bæði í München en ég kom frá Kaliforníu á laugardaginn eftir langa útilegu (og stutta Benidorm ferð) og Ingibjörg kom frá Íslandi á sunnudaginn. Við fljúgum síðan bæði til Íslands á sunnudaginn næsta en samkvæmt fréttum er byrjað að birta til þar eftir langa vætutíð.

Það er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu hér fyrir sunnan enda 30-35 stiga hiti dag eftir dag. Vinsælt ráð gegn hitanum er að hlamma sér niður í bjórgarði og vinna bug á honum með líterskrús að vopni.

Vona að veðrið verði til friðs á Íslandi í ágúst því þá ætla ég að vera í fríi.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Kebab Summer Hits '06

Vinir mínir og samlandar í Dürum Boyz drengjasveitinni eru komnir með lag sem er að síga upp Kebab vinsældalistana í Evrópu og kannski nær maður líka að koma þeim á kortið í L.A.

Kebabvinir, njótið hér.

föstudagur, júní 09, 2006

Kahn hefði tekið þetta

Jæja, það liðu örfáar mínútur þar til Kosta Ríka jafnaði með lélegu sparki sem Oli Kahn hefði getað varið með litla putta en lak að sjálfsögðu fram hjá Lehmann.

Þetta hefur verið tragíkómísk stund hjá aðdáendum Kahn.

Það er naumast að opnunarleikur WM hefur losað um ritstífluna en hér með er penninn lagður á hilluna þar til næst.

(Og þá skoraði Bayern schnillingurinn Schweinsteiger með skoti sem breytti um stefnu á Klose... schiess ein Tor, schiess ein Tor, schiess ein Tor!!!)

Heimalningurinn skorar fyrsta markið!!

Eftir aðeins nokkrar mínútur er heimalningurinn hjá Bayern München, Philipp Lahm, búinn að skora fyrsta markið á WM.

Ég man ekki betur en að einhver hafi veriði að lýsa yfir vantrausti á viðkomandi í allan vetur og gagnrýnt harðlega ákvörðun Klinsmanns um að hafa hann í liðinu.

Servus, Philip Lahm!!

Allt hljótt á vesturvígstöðvunum

Frekar sorglegt að vera staddur í Kaliforníu og horfa á ESPN2 senda frá opnunarhátíð WM í München vitandi það að litlar líkur eru á að maður nái að kíkja heim fyrir lok WM.

Það er þó huggun harmi gegn að Ingibjörg ætlar að fljúga til L.A. þjóðhátíðardaginn 17. júní og vera í viku. Ef þessi króníska ritstífla skánar eitthvað þá munum við setja inn myndir og fréttir á síðuna.

mánudagur, maí 08, 2006

Nýjar myndir á myndasíðunni

Bara að benda á að það er fullt af nýjum myndum á myndasíðunni en sú nýbreytni var tekin upp að nú þarf að slá inn lykilorð. Lykilorðið er starfsheiti Ingibjargar en fyrir fattlausa er best að senda rafpóst á mgudjonsson hjá gmail.com

Látum myndirnar tala sínu máli.

föstudagur, janúar 27, 2006

Er það furða

... að þessi maður sé vinsæll í Þýskalandi. David Hasselhoff hefur allt sem til þarf. Ég bendi á vídeóið hér að neðan því til stuðnings en þar hefur hann sér til fulltingis hana Leoncie sem sér um undirleik og Helga Má sem gerði myndbandið og sést bregða fyrir í lokin með grímu (ekki furða).

Njótið hér.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Skítakuldi

Ætli það sé nú ekki kominn tími til að ég bloggi, það er nú orðið bara Maggi sem heldur þessari síðu gangandi. En nú ætla ég að fara að taka mig aðeins á. Eins og flestir vita þá var ég á Íslandi í 2 mánuði og kom aftur hingað þann 9. janúar. Það er nú alltaf ósköp gott að koma heim til sín þó að ég hafi haft það mjög gott á 5 stjörnu hótel mömmu á Íslandi.
Héðan frá Munkaþverá er annars lítið að frétta, ég lá í flensu alla síðustu viku en er nú öll að hressast. Það er nú ekkert skrítið að maður leggist í flensu við að koma hingað miðað við þann skítakulda sem hér er. Mínusgráðurnar hafa farið niður í allt að 20 gráður á nóttunni hér rétt utan borgarinnar.
Annars skelltum við okkur á skíði síðustu helgi, Maggi fór á laugardagsmorgninum og skíðaði bæði laugadag og sunnudag en ég fór ekki fyrr en á sunnudagsmorgninum. Ég þorði ekki að skíða 2 daga þar sem ég var að stíga upp úr veikindum. Við vorum á skíðasvæði í Austurríki sem er ekki nema rétt rúman klukkutíma frá Munchen. Þetta var alveg frábær dagur, veðrið var fínt, frekar hlýtt, það eina sem hægt var að kvarta yfir var þokan, maður sá nánast ekki neitt í hæstu brekkunum. Skíðafærið gat annars ekki verið betra og ég held ég hafi bara aldrei áður skíðað í svona miklum snjó.
Eva Mjöll systir fer svo með honum Gunna sínum og krökkum úr hjálpasveitinni í Garðabæ til Austurríkis á skíði næstu helgi á svæði sem heitir St. Anton og við ætlum að fara og skíða með þeim í 2 daga. Helgina þar á eftir verða svo foreldrar hans Magga á skíðum á Italíu og ætlum við að reyna að fara og hitta þau líka.