Í fréttum er þetta helst

þriðjudagur, september 28, 2004

Síðustu dagar...

Eftir mikið japl, jaml og aðallega fuður fengum við draslið okkar sem sent var frá Íslandi, loksins á laugardagsmorgni. Áttum að fá það á fimmtudaginn um kl. 16 en síðasta fyrirtækið í flutningakeðjunni vildi bara senda út á milli 10 og 15. Ég röflaði lengi í síma yfir þessu við öll þrjú fyrirtækin sem komu að flutningnum og sannfærðist enn um að Þjóðverjar (a.m.k. Bæverjar) væru ekki nákvæmir heldur bara þverhausar.

Það virðist ekki vera hægt að eiga samskipti við nokkuð fyrirtæki eða stofnun hérna án þess að það sé í fyrsta lagi alveg hrikalega flókið og erfitt og endi svo með því að ekkert standist! Máli mínu til stuðnings bendi ég á flutninginn, Telekom gaurinn sem aldrei kom eftir að ég hafði beðið heima í sex tíma og hræðilega reynslu Ingibjargar af bæjarskrifstofunum hérna.

Það sem bjargar þessu er Oktoberfest sem stendur sem hæst þessa dagana. Við fórum á föstudaginn og settumst í tjald með 10.000 öðrum hátíðargestum - þar af nokkrum Íslendingum. Dvöldum þar í þrjá tíma við bæverskan veizlukost og bjór í lítratali undir dúndrandi blæstri lúðrasveitarinnar. Einn Austurríkismannana á borðinu við hliðina á okkur dó drottni sínum um klukkan kortér í tvö e.h. við mikinn fögnuð nærstaddra sem reyndu allt til að vekja manninn án árangurs (félagar hans bundu m.a.s. langa blöðru utan um hausinn á honum og sprengdu svo en allt kom fyrir ekki).

Það er ekki hægt að segja annað en að í raun er Oktoberfest bara fjöldafyllerí sem heldur áfram allan daginn alla daga. Íslendingar þurfa sko ekkert að skammast sín fyrir Þjóðhátíð... munurinn er bara sá að hér er þetta alþjóðlega viðurkenndur menningarviðburður og stendur í þrjár vikur!

Nú um klukkan hálfsex munu Íslendingarnir hittast á Oktoberfest til að éta og drekka í boði ræðismannsins hérna. Ég gæti hugsað mér verri endi á vinnudegi :þ

þriðjudagur, september 21, 2004

Helgarbíltúr

Ákváðum að skella okkur aðeins á rúntinn um helgina og leigðum okkur bíl frá föstudegi fram á mánudag hjá góðvinum okkar á bílaleigunni Sixt. Að kröfu frúarinnar varð fyrir valinu nýr BMW 525i skutbíll með öllum herlegheitum enda ekki hægt að bjóða henni upp á lakari farkost. Hann hafði ýmsa kosti, t.d. gat ég látið fara vel um mig í leðrinu og horft á sjónvarpið meðan ég beið á bílastæðinu við IKEA eftir að Ingibjörg næði í fleiri stóla :D

Við fórum af stað frá München á laugardagsmorgninum og tókum hraðbrautina til Stuttgart þar sem við byrjuðum á að rölta aðeins um bæinn. Mér til mikilla vonbrigða var skeggjaða austur-þýska kúluvarparakerlingin greinilega hætt að vinna þar og því enga minnisstæða currywurst að fá þar eins og '95. Ég kættist þó ögn eftir heimsókn í Porsche safnið og sýningarsalinn þar sem ég og Ingibjörg völdum okkur sitthvorn bílinn, hún gráan en ég bláan.
Frá Stuttgart lá leiðin í gegnum Svartaskóg með viðkomu á nokkrum stöðum og um kvöldið enduðum við í bænum Singen sem er rétt við Bodensee. Þar gistum við á ágætis bar/gistihúsi sem bíllinn fékk að velja (er ekki nóg að hafa einn aftursætisbílstjóra?). Á sunnudeginum var svo byrjað á því að rúnta um Bodensee og urðu nokkrir fallegir bæir á leiðinni, þ.á.m. Überlingen.
Eftir það var haldið aftur til München með smá viðkomu í Landsberg am Lech sem er lítill bær hérna rétt hjá. Það væri fínt að hafa myndir úr ferðinni með þessari lýsingu en við erum ekki búin að redda okkur netsíðu undir svoleiðis - ef einhver hefur góð ráð varðandi það þá endilega láta okkur vita.

þriðjudagur, september 14, 2004

Stammtisch

Skemmtilegur siður hjá Íslendingamafíunni að hittast einu sinni í mánuði í bjórgarði. Á föstudaginn mættu ca. 20 manns í Hofbräukeller á Max-Weber-Platz til að spjalla um daginn og veginn og drekka bjór. Svo var endað á þröngum, sveittum og yfirfullum írskum pöbb þar sem bandið spilaði fram á nótt.

N.B. Hér í München er stór bjór STÓR bjór!

Myndaruglingur

Ég vil biðja þá afsökunar sem tóku myndina af Neuschwanstein kastala fyrir mynd af nýju blokkinni okkar. Lofa að gera ekki svona aftur. Það er allt í lagi að vera með glens ef það fer ekki út í sprell.

P.s. litmyndir hafa verið teknar í nýju íbúðinni og eru væntanlegar á alnetið innan fárra daga.

Ingibjörg á skólabekk

Fyrsti skóladagurinn hjá Ingibjörgu var í gær en henni var tekið með kostum og kynjum af kennurum og skólastjóra í síðustu viku enda ekki á hverjum degi sem Íslendingur hefur nám við skólann.

(Hægt er að senda Ingibjörgu stuðnings- og baráttukveðjur með því að smella á "Comments" undir þessari frétt og færast þá 500 krónur af símreikningi yðar)

Innflutningur

Það var skrifað undir leigusamninginn fyrir nýju íbúðina í lok síðustu viku og við erum búin að koma okkur þar fyrir með eldhúsborð, tvo klappstóla, sófa í stofunni og rúm. Tvær gríðarlega skemmtilegar IKEA ferðir voru farnar á Benz Vito sendiferðabíl. Hingað til eini Benzinn sem ég hef fengið að keyra í München.

Enginn sími er í íbúðinni enn sem komið er svo það skýrir stopular uppfærlslur á þessari fréttasíðu. Vonandi reddast það með Telekom gaurnum sem á að koma á mánudaginn að tengja símann.

mánudagur, september 06, 2004

Oktoberfest 2004

Fórum á röltið með Rúnari og Kristínu í gær eftir að þau komu að skoða íbúðina á Leonrodplatz og veita andlega stuðning.
Skoðuðum m.a. Oktoberfest svæðið þar sem verið er að gera allt klárt fyrir heimsins stærsta og lengsta fyllerí en það hefst þann 18. september. Prost!

Horfur að batna?

Það er skammt stórra högga á milli... gaurinn sem sýndi okkur íbúðina á Leonrodplatz hringdi núna rétt áðan til að segja okkur að við fengjum hana og gætum líklega skrifað undir á morgun eða hinn :D

Í stuttu máli er þetta hin fínasta íbúð og vel staðsett m.v. samgöngukerfi Münchenar. Reyndar hvorki svalir né bílskúr en hún er björt og rúmgóð með mikla lofthæð.

Bendi á myndina hér að neðan til skýringar en hún sýnir hvar íbúðin er staðsett í vesturturni (lengst til hægri) fjölbýlishússins að Dompedrostrasse 2 við Leonrodplatz.


Fréttasíðan rúllar af stað...

Í gær var það helst í fréttum að loksins náðist tenging við alnetið hér í München og þar með var bjargað fyrir horn geðheilsu helmings íbúa Volkartstrasse 73 1.h.h. Þessi viðbrigði ollu einnig straumhvörfum í fréttaflutningi af átakasvæðinu því nú er þessi fína fréttasíða komin upp og verða hér birtar helstu fréttaskýringar, myndasýningar, skyggnilýsingar og annað sem varpað gæti ljósi á veru okkar hér í borg óttans - München!

Með kveðjum heim í heiðardalinn,
f.h. heimilislausra
Magnús Guðjónsson