Í fréttum er þetta helst

þriðjudagur, september 21, 2004

Helgarbíltúr

Ákváðum að skella okkur aðeins á rúntinn um helgina og leigðum okkur bíl frá föstudegi fram á mánudag hjá góðvinum okkar á bílaleigunni Sixt. Að kröfu frúarinnar varð fyrir valinu nýr BMW 525i skutbíll með öllum herlegheitum enda ekki hægt að bjóða henni upp á lakari farkost. Hann hafði ýmsa kosti, t.d. gat ég látið fara vel um mig í leðrinu og horft á sjónvarpið meðan ég beið á bílastæðinu við IKEA eftir að Ingibjörg næði í fleiri stóla :D

Við fórum af stað frá München á laugardagsmorgninum og tókum hraðbrautina til Stuttgart þar sem við byrjuðum á að rölta aðeins um bæinn. Mér til mikilla vonbrigða var skeggjaða austur-þýska kúluvarparakerlingin greinilega hætt að vinna þar og því enga minnisstæða currywurst að fá þar eins og '95. Ég kættist þó ögn eftir heimsókn í Porsche safnið og sýningarsalinn þar sem ég og Ingibjörg völdum okkur sitthvorn bílinn, hún gráan en ég bláan.
Frá Stuttgart lá leiðin í gegnum Svartaskóg með viðkomu á nokkrum stöðum og um kvöldið enduðum við í bænum Singen sem er rétt við Bodensee. Þar gistum við á ágætis bar/gistihúsi sem bíllinn fékk að velja (er ekki nóg að hafa einn aftursætisbílstjóra?). Á sunnudeginum var svo byrjað á því að rúnta um Bodensee og urðu nokkrir fallegir bæir á leiðinni, þ.á.m. Überlingen.
Eftir það var haldið aftur til München með smá viðkomu í Landsberg am Lech sem er lítill bær hérna rétt hjá. Það væri fínt að hafa myndir úr ferðinni með þessari lýsingu en við erum ekki búin að redda okkur netsíðu undir svoleiðis - ef einhver hefur góð ráð varðandi það þá endilega láta okkur vita.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home