Í fréttum er þetta helst

þriðjudagur, september 28, 2004

Síðustu dagar...

Eftir mikið japl, jaml og aðallega fuður fengum við draslið okkar sem sent var frá Íslandi, loksins á laugardagsmorgni. Áttum að fá það á fimmtudaginn um kl. 16 en síðasta fyrirtækið í flutningakeðjunni vildi bara senda út á milli 10 og 15. Ég röflaði lengi í síma yfir þessu við öll þrjú fyrirtækin sem komu að flutningnum og sannfærðist enn um að Þjóðverjar (a.m.k. Bæverjar) væru ekki nákvæmir heldur bara þverhausar.

Það virðist ekki vera hægt að eiga samskipti við nokkuð fyrirtæki eða stofnun hérna án þess að það sé í fyrsta lagi alveg hrikalega flókið og erfitt og endi svo með því að ekkert standist! Máli mínu til stuðnings bendi ég á flutninginn, Telekom gaurinn sem aldrei kom eftir að ég hafði beðið heima í sex tíma og hræðilega reynslu Ingibjargar af bæjarskrifstofunum hérna.

Það sem bjargar þessu er Oktoberfest sem stendur sem hæst þessa dagana. Við fórum á föstudaginn og settumst í tjald með 10.000 öðrum hátíðargestum - þar af nokkrum Íslendingum. Dvöldum þar í þrjá tíma við bæverskan veizlukost og bjór í lítratali undir dúndrandi blæstri lúðrasveitarinnar. Einn Austurríkismannana á borðinu við hliðina á okkur dó drottni sínum um klukkan kortér í tvö e.h. við mikinn fögnuð nærstaddra sem reyndu allt til að vekja manninn án árangurs (félagar hans bundu m.a.s. langa blöðru utan um hausinn á honum og sprengdu svo en allt kom fyrir ekki).

Það er ekki hægt að segja annað en að í raun er Oktoberfest bara fjöldafyllerí sem heldur áfram allan daginn alla daga. Íslendingar þurfa sko ekkert að skammast sín fyrir Þjóðhátíð... munurinn er bara sá að hér er þetta alþjóðlega viðurkenndur menningarviðburður og stendur í þrjár vikur!

Nú um klukkan hálfsex munu Íslendingarnir hittast á Oktoberfest til að éta og drekka í boði ræðismannsins hérna. Ég gæti hugsað mér verri endi á vinnudegi :þ

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home