Í fréttum er þetta helst

miðvikudagur, október 20, 2004

It's raining, man

Þessar línur eru skrifaðar í Kaliforníu þar sem rignir eldi og brennisteini :(

Ég kom hingað á sunnudaginn eftir stysta og lengsta þotuflug sem ég hef til þessa þurft að sitja í: 35 mínútur frá München til Frankfurt og síðan 11 tíma frá Frankfurt til L.A.

Það er skárra veður í München í dag heldur en hérna en versta veðrið er alveg örugglega á Íslandi!

Heimsókn að heiman

Foreldrar Ingibjargar komu hingað út til okkar og voru í viku. Þeim var tekið fegins hendi á Dom-Pedro-Strasse og höfðu þau ýmsan varning með sér að heiman s.s. harðfisk, gítar, XBox, reykelsi og myrru. Það má því nærri geta að fögnuðurinn var mikill.

Ýmislegt var bardúsað á meðan á dvölinni stóð, m.a. fórum við með þeim í tveggja daga rúnt (laugardag og sunnudag) til Austurríkis og N-Ítalíu. Við byrjuðum á að keyra til Innsbruck þar sem við eyddum nokkrum tímum í rólegheitum áður en við héldum áfram til Merano þar sem Marlene vinkona þeirra býr. Þar var okkur vel tekið eins og ávallt og gistum við hjá henni um nóttina.

Á sunnudeginum fórum við sunnudagsrúnt um ítölsku alpana sem hafði svo djúpstæð áhrif á mig og Ingibjörgu að við ákváðum að þangað skyldi haldið á skíði í vetur. Ef einhver þarf að ná í okkur 5.-12. febrúar þá verðum við á skíðum í Selva :D

föstudagur, október 08, 2004

Talsími

Loksins! Loksins!

Það er mér sönn ánægja að kynna talsímanúmer vísitölufjölskyldunnar á Dom-Pedro Strasse 2.

Númerið er +49 89 1589 2515.Sigurbjörn og Dagbjört mætt á svæðið

Sigurbjörn og Dagbjört komu í gærkvöldi til okkar og verða næstu vikuna. Við slepptum þeim lausum í bænum í morgun en hittum þau vonandi heil á húfi í hádeginu. Sem betur fer virðist veðurspáin ekki ætla að ganga eftir því nú er bara sól og blíða :)

miðvikudagur, október 06, 2004

Frægt fólk í búðum

Rakst á hinn geðprúða landsliðsmarkvörð Oliver Kahn í Karstadt áðan þegar ég var að litast um í íþróttadeildinni í hádeginu. Hann var að krota á myndir fyrir gesti og gangandi og var stilltur. Að minnsta kosti var hann ekki búinn að reka hanskann upp í nefið á neinum eins og hann gerði við Miroslav Klose í síðasta leik.


þriðjudagur, október 05, 2004

Veðurfréttir

Síðustu 3 daga er búið að vera alveg rosalega gott veður hérna - kærkomið eftir úrhellið og haglélið á föstudaginn.

Þessa stundina (kl. 15 þriðjudaginn 5. september) er sól, logn og 27,2 °C hiti samkvæmt opinberum veðurmælingum.

Rúnar er greinilega alvöru formaður því hann hringdi áðan og skipulagði hitting í bjórgarði til að fólk gæti kælt sig niður. Ég fer að segja þetta gott á skrifstofunni í dag....

Sonnig, Temperatur: 27.2 °C, Luftdruck: 1014.6 hPa