Pabbi og mamma Magga komu í heimsókn og voru hér yfir páskana í góðu yfirlæti. Þeim var að mestu leyft að ganga sjálfala í borginni en á þriðja degi var haldið í ferðalag um nágrannasveitir. Við byrjuðum á því að fara út að Bodensee þar sem veðrið lék við okkur - vorsól og blíða. Þaðan var síðan haldið niður til Sviss og gist í Hergiswil sem er rétt við Luzern. Næsta degi eyddum við í að spóka okkur um Luzern í fylgd heimamannsins og vinar okkar Peter Sommer sem bauð okkur að lokum heim í eftirmiðdagssnarl áður en við héldum aftur yfir landamærin til Bodensee um kvöldið. Kvöldið endaði svo með því að við fundum okkur næturstað á lítilli og skemmtilegri eyju sem er úti í Bodensee vatni og heitir Lindau Insel. Þriðja og síðasta deginum (föstudeginum langa) eyddum við undir Alparótum með viðkomu í Füssen og Hohenschwangau þar sem m.a. er að finna kastalann Neuschwanstein.
Á laugardeginum brugðum við undir okkur betri fætinum, klæddum okkur upp og fórum með öllu hinu fína fólkinu í München í óperuna. Sýning kvöldsins var Madame Butterfly og var hún glæsileg í alla staði.
Að lokum ber að taka fram að á Páskadag var framreitt páskalamb að íslenskum sið við mikla hrifningu brottfluttra nema fórnarlambsins sjálfs sem var af nýsjálenskum ættum.