Í fréttum er þetta helst

sunnudagur, apríl 17, 2005

Kylie... búmm tiss

Það tekur engan enda flóðið af listamönnum sem sækja Munkaþverá heim - nú var það Kylie Minogue sem gladdi landann með greitest hitts sjóinu sínu "Showgirl". Húsfyllir var í Olympiahalle og allir í góðum fíling. Við Ingibjörg mættum að sjálfsögðu á svæðið með fleiri Íslendingum og tókum nokkur létt spor.

Húsgagn og gaman

Endlich.... eftir mikið japl, jaml og fuður fengum húsgögnin okkar frá Bo Concept daginn eftir að mamma og pabbi fóru. Hingað komu tveir hressir gaurar og settu saman stól, legubekk og skenk.

Gistiheimilið að Dom-Pedro Strasse er nú fjögurra stjörnu.

Unnur og Guðjón í heimsókn

Pabbi og mamma Magga komu í heimsókn og voru hér yfir páskana í góðu yfirlæti. Þeim var að mestu leyft að ganga sjálfala í borginni en á þriðja degi var haldið í ferðalag um nágrannasveitir. Við byrjuðum á því að fara út að Bodensee þar sem veðrið lék við okkur - vorsól og blíða. Þaðan var síðan haldið niður til Sviss og gist í Hergiswil sem er rétt við Luzern. Næsta degi eyddum við í að spóka okkur um Luzern í fylgd heimamannsins og vinar okkar Peter Sommer sem bauð okkur að lokum heim í eftirmiðdagssnarl áður en við héldum aftur yfir landamærin til Bodensee um kvöldið. Kvöldið endaði svo með því að við fundum okkur næturstað á lítilli og skemmtilegri eyju sem er úti í Bodensee vatni og heitir Lindau Insel. Þriðja og síðasta deginum (föstudeginum langa) eyddum við undir Alparótum með viðkomu í Füssen og Hohenschwangau þar sem m.a. er að finna kastalann Neuschwanstein.

Á laugardeginum brugðum við undir okkur betri fætinum, klæddum okkur upp og fórum með öllu hinu fína fólkinu í München í óperuna. Sýning kvöldsins var Madame Butterfly og var hún glæsileg í alla staði.

Að lokum ber að taka fram að á Páskadag var framreitt páskalamb að íslenskum sið við mikla hrifningu brottfluttra nema fórnarlambsins sjálfs sem var af nýsjálenskum ættum.