Í fréttum er þetta helst

föstudagur, maí 13, 2005

San Francisco

Brá undir mig betri fætinum um daginn og skellti mér í stutta helgarferð til San Francisco. Steig upp í vél á laugardagsmorgni á John Wayne flugvelli í Santa Ana og naut útsýnisins yfir vesturströndina á heiðskírum vordegi í Kaliforníu. Aðflugið að Oakland flugvelli var forsmekkurinn að því sem koma skyldi enda sáust helstu túristastaðirnir út um gluggann þegar vélin skreið inn flóann.



Laugardeginum var eytt í að rölta um Fisherman's Wharf (hafnarsvæðið) og fararstýrða rútuferð um San Francisco. Síðan skellti ég mér á grínklúbb um kvöldið og endaði á pöbbarölti með Kana nokkrum í svipuðum erindagjörðum ásamt nokkrum innfæddum sem tóku okkur upp á arma sína og vildu endilega tryggja að Íslendingurinn bæri hróður San Fransíska næturlífsins víðar.



Eftir að hafa komist seint og illa fram úr rúminu á sunnudeginum tók við meiri túrhestapakki: Lombard Street, sporvagnar, Kínahverfið og sigling út í Alcatraz ásamt skoðunarferð sem reyndist hin besta og óvæntasta skemmtun. Endaði sunnudagskvöldið á að gúffa í mig krabba, rækjum, hörpudisk og ostrum á Fisherman's Wharf.... slabb... namm.



Flaug svo snemma á mánudagsmorgni til Santa Ana þar sem Yngvi sótti mig á flugvöllinn og var ekið beinustu leið á skrifstofuna til að hefja vinnudaginn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home