Í fréttum er þetta helst

föstudagur, júlí 22, 2005

Jackson flytur til Þýskalands

Enn bætist í stóran og glæsilegan hóp Þýskalandsvina. Nú hefur Morgunblaðið greint frá því að Michael Jackson hyggist jafnvel flytja hingað og endurbyggja Neverland búgarð sinni einhvers staðar í Þýskalandi. Haft er eftir ráðgjafa hans að Jackson hyggist selja búgarðinn í Kaliforníu enda líði honum ekki vel þar eftir réttarhöldin.

Við bjóðum Jacko velkominn og vonum að honum verði jafn vel tekið og David Hasselhoff og hraðbátnum úr Miami Vice sem einnig hafa notið langlífari frægðar í Þýskalandi en Bandaríkjunum.

Jæja, nóg að sinni. Best að fara að horfa á aðra seríu Baywatch sem fer að byrja í þýska sjónvarpinu og skella svo Hasselhoff á fóninn rétt fyrir lágnættið.

Tschüss

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Sól og bjór

Það vildi svo skemmtilega til að það fór saman gott veður og bjórdrykkja hér í München síðastliðinn sunnudag. Helsta ástæða þess að við völdum bjór í þetta skiptið til að svala þorstanum var sú að bæverska bryggerisambandið hélt upp á 125 ára afmæli sitt með bjórsýningu. Eftir sólbað í Enska garðinum var því haldið á Odeonsplatz þar sem 60 brugghús "sýndu" 200 tegundir af bjór og þjóðlegur hljóðfærasláttur og dansar voru í hávegum hafðir í blandi við bæverska matargerðarlist.

Vinir mínír frá Bamberg voru hressir á svæðinu með rauchbier-inn sinn (reyktur bjór). Áhugasamir geta kynnt sér framleiðsluna á www.rauchbier.de og jafnvel fengið sent heim innan Evrópusambandsins (nú hefðu sumir betur kosið Framsóknarflokkinn, ha?).

laugardagur, júlí 16, 2005

Höfuðborgin heimsótt

Við ákváðum að bregða undir okkur betri fætinum (eða bílnum) og skella okkur til Berlínar helgina 8.-10. júlí. Ferðin byrjaði strax vel þegar við fengum afhentan tveggja sæta BMW Z4 blæjubíl hjá Sixt bílaleigunni og þeystum af stað upp úr hádegi frá München. Reyndar er ofsögum sagt að við höfum þeyst af stað enda var umferðin út úr München frekar hæg svona eftir hádegi á föstudegi. Það rættist þó úr því og við náðum ágætis árangri á hraðbrautinni fyrir utan nokkur stau (umferðaröngþveiti) en þá var blæjan bara tekin niður og slappað af í sólbaði meðan beðið var.Við komum inn á hótel í Berlín um áttaleytið, hentum töskunum upp á herbergi og héldum af stað í leit að æti. Eftir nokkra göngu og álitlega staði lentum við óvænt inni á japönskum Kushi stað (nei, ekki Sushi) sem reyndist svo bæði skemmtilegur og góður.

Laugardeginum eyddum við í að taka túristapakkann. Fórum á alla helstu staðina, sýndum okkur og sáum aðra. Um kvöldið mæltum við okkur síðan mót við Eirik, fórum með honum út að borða og hlýddum á sögur af lífinu í Austur-Berlín yfir nokkrum bjórum.Á sunnudeginum tékkuðum við okkur út af hótelinu og héldum yfir í austurhlutann. Eftirmiðdeginum var svo eytt í rólegheitum á pakistönskum veitingastað, flóamarkaði, sólarströndinni Oststrand o.fl. Það er óhætt að segja að stemmningin í Austur-Berlín hafi verið skemmtileg og ekki síst á Oststrand í 30°C hita og sól með svaladrykk í annarri og dúndrandi reaggae í eyrunum.Svo var kominn tími til að halda heim um fjögurleytið en heimferðin var á þessa leið:
* gekk vel á hraðbrautinni að mestu leyti
* stoppuðum í Nürnberg, fengum okkur að borða og keyptum rauchbier til að hafa með heim
* BMW-inn dó drottni sínum kl. 23:05 á autobahninum rétt áður en við komum til München. Þetta gerðist á 140km/klst á vinstri akreininni. Eftir mikið dráttar- og leigubílsvesen komumst við loks heim kl. 01:30.

Eftir að vera búinn að rausa yfir þessu þrisvar við Sixt bíðum við nú eftir að þýska þjónustulundin sýni á sér nýja og óvænta hlið og miskunni sig yfir okkur í formi einhverra skaðabóta.

Myndir frá New York

Jæja, þá eru myndir frá New York loksins komnar inn. Við mættumst á miðri leið þar (ég kom frá Cali og Ingibjörg frá München) og eyddum nokkrum dögum áður en við fórum til Dómíníkanska. Ég kom reyndar nokkrum dögum fyrr og var í vafasömum félagsskap þeirra Úlfs og Kalla... það verða engar myndir settar inn af því.