Í fréttum er þetta helst

laugardagur, júlí 16, 2005

Höfuðborgin heimsótt

Við ákváðum að bregða undir okkur betri fætinum (eða bílnum) og skella okkur til Berlínar helgina 8.-10. júlí. Ferðin byrjaði strax vel þegar við fengum afhentan tveggja sæta BMW Z4 blæjubíl hjá Sixt bílaleigunni og þeystum af stað upp úr hádegi frá München. Reyndar er ofsögum sagt að við höfum þeyst af stað enda var umferðin út úr München frekar hæg svona eftir hádegi á föstudegi. Það rættist þó úr því og við náðum ágætis árangri á hraðbrautinni fyrir utan nokkur stau (umferðaröngþveiti) en þá var blæjan bara tekin niður og slappað af í sólbaði meðan beðið var.Við komum inn á hótel í Berlín um áttaleytið, hentum töskunum upp á herbergi og héldum af stað í leit að æti. Eftir nokkra göngu og álitlega staði lentum við óvænt inni á japönskum Kushi stað (nei, ekki Sushi) sem reyndist svo bæði skemmtilegur og góður.

Laugardeginum eyddum við í að taka túristapakkann. Fórum á alla helstu staðina, sýndum okkur og sáum aðra. Um kvöldið mæltum við okkur síðan mót við Eirik, fórum með honum út að borða og hlýddum á sögur af lífinu í Austur-Berlín yfir nokkrum bjórum.Á sunnudeginum tékkuðum við okkur út af hótelinu og héldum yfir í austurhlutann. Eftirmiðdeginum var svo eytt í rólegheitum á pakistönskum veitingastað, flóamarkaði, sólarströndinni Oststrand o.fl. Það er óhætt að segja að stemmningin í Austur-Berlín hafi verið skemmtileg og ekki síst á Oststrand í 30°C hita og sól með svaladrykk í annarri og dúndrandi reaggae í eyrunum.Svo var kominn tími til að halda heim um fjögurleytið en heimferðin var á þessa leið:
* gekk vel á hraðbrautinni að mestu leyti
* stoppuðum í Nürnberg, fengum okkur að borða og keyptum rauchbier til að hafa með heim
* BMW-inn dó drottni sínum kl. 23:05 á autobahninum rétt áður en við komum til München. Þetta gerðist á 140km/klst á vinstri akreininni. Eftir mikið dráttar- og leigubílsvesen komumst við loks heim kl. 01:30.

Eftir að vera búinn að rausa yfir þessu þrisvar við Sixt bíðum við nú eftir að þýska þjónustulundin sýni á sér nýja og óvænta hlið og miskunni sig yfir okkur í formi einhverra skaðabóta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home