Í fréttum er þetta helst

þriðjudagur, september 20, 2005

De-Lux

Fórum í smá helgarskrepp um síðustu helgi sem hófst með því að við héldum af stað frá München áleiðis til Karlsruhe um kvöldmatarleytið á fimmtudaginn. Þar fengum við inni hjá Gísla og Stefaníu sem reynar höfðu farið til Íslands fyrr um daginn. Síðan héldum við áfram til Luxembourg á föstudagsmorgninum en þangað komum við um hádegisbil að heimili Sigga (frænda) Karls í íslensku veðri: Rigningu, roki og kulda. Við fengum að vonum hlýjar móttökur þegar við komum þangað og eyddum eftirmiðdeginum í bæjarrölti með Kristínu og Badda. Um kvöldið var svo haldið út að borða þar sem allir gúffuðu í sig flamberuðum risarækjum í hvítlaukssmjöri sem mest þeir máttu.

Að því loknu fórum við til Gumma og Hildar sem hýstu okkur aðfaranótt laugardags. Við tókum það rólega með þeim í Luxembourg á laugardeginum og fórum í bíltúr niður að Mósel þar sem áð var í vínsmökkun. Brynjar litli heillaði allar þýsku kerlingarnar upp úr skónum enda sjarmör fram í fingurgóma eins og hann á kyn til. Hann fékk meira að segja nýbakaðar vöfflur frá ömmunni á bænum en við hin urðum að gera okkur að góðu vel kælt Elbling Spätlese árgerð 2003.



Eftir gómsæta máltíð á indverskum stað um kvöldið héldum við svo aftur til Sigga Karls og fjölskyldu en hann hafði komið fyrr um daginn eftir fjórtán tíma cargo flug frá Sjanghæ. Þar var spjallað fram eftir kvöldi og Philips heimabjórdælan kom að góðum notum.

Á sunnudagsmorgninum var vaknað snemma (svona miðað við) og haldið af stað til Frankfurt þar sem planið var að hitta Ögmund rétt fyrir hádegi. Það stóðst og áttum við yndislegan dag (ég og Ögmundur) á bílasýningunni í Frankfurt. Ingibjörg fékk ótal prik í kladdann fyrir að nenna að hanga með tveimur bílavitleysingum í sjö tíma en fékk þó ís að borða eins og tilheyrir í bíltúrum á þessu heimili. Héldum síðan af stað upp úr sjö áleiðis til München með einni viðkomu á Burger King í Würzburg. Þar var frekar um að ræða strategískt hraðbrautarstopp en ólýsanlega löngun í framleiðslu hamborgarakóngsins enda þessi tiltekni staður með þeim slappari í öllu konungsríkinu.



Allir komu svo heilir og sælir heim undir hálftólf á sunnudagskvöldið. Allra hressastur var samt BMW-inn sem ekki gafst upp eins og bróðir hans gerði hér um daginn og endurreisti þar með trú og traust á bæverska gæðastálinu.

1 Comments:

At september 21, 2005 9:16 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þú hefur verið Klukkaður Maggi! Skrifaðu 5 staðreyndir um sjálfann þig.

Kv, Edda Björk

 

Skrifa ummæli

<< Home