Í fréttum er þetta helst

fimmtudagur, október 27, 2005

Straight Outta Compton

Ég hef flogið nokkrum sinnum með NWA (Northwest Airlines) og það var ekkert spes. Það hefði hins vegar örugglega orðið spes ef ég hefði flogið með NWA (Ni***rs With Attitude) en það var fyrsta gangsta rap sveitin sem náði að slá almennilega í gegn enda ekki ómerkari menn en Dr. Dre og Ice Cube innanborðs. Þeir fluttu ljóð og lög um hversdagsleg málefni (morð, eiturlyf og gengi) í Suður-Los Angeles og urðu einna þekktastir fyrir raunsæisrómtantíkina "Straight Outta Compton". Minningin um það lag fékk mig til að snúa snarlega við þegar ég villtist á bílaleigubíl inn í Compton síðasta vetur.

Nýlega rak á fjörur mínar indæla útgáfu af þessu lagi, flutta af Ninu Gordon sem var söngkona Veruca Salt á tíunda áratug síðustu aldar og gerir hún lagið að sínu eins og þykir móðins. Ef ég hefði heyrt þessa útgáfu af laginu hefði ég líklega haldið áfram sunnudagsbíltúr um Compton og kynnst af eigin raun þeim persónum sem lýsa sjálfum sér í textanum.

Respect to Ömmi fyrir ábendinguna.

Nina Gordon - Straight Outta Compton

miðvikudagur, október 26, 2005

Ævintýralegt skokk

Ég fagnaði þeim merkisárangri í gær að hafa farið út að skokka. Atburðurinn átti sér stað í Olympiapark og átti ég mér einskis ills von nema ef vera skyldi úthalds undir meðallagi. Ekki var ég kominn langt á veg þegar ég hljóp fram á hóp úlfalda sem stóðu við gangsstíginn. Hélt ég fyrst að þarna væri um ofsjónir sökum ofreynslu að ræða en þar sem aðeins voru liðnar tvær mínútur af skokkinu þá útlokaði ég þann möguleika. Þetta voru sumsagt skrýtnustu útlendingar sem ég hef séð í flótamannahverfinu við Olympiapark.

Þá var ekki um annað að ræða en að halda áfram og með herkjum náði ég að hlaupa upp á Olympiaberg en það er hóll í miðjum Olympiapark sem reistur er á húsarústum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þaðan sést vítt og breitt á góðum degi og gat ég virt fyrir mér Alpana frá Salzburger Land í austri og vestur til Sviss... eða svona um það bil. Fjallaskoðunin reyndist kærkomin hvíld allt þar til ég lagði aftur af stað heim nokkrum mínútum síðar.

Það er leiðinlegt að skokka en svo lengi sem eitthvað nýtt verður að skoða á hverjum degi þá held ég ótrauður áfram. Í kjólinn fyrir jólin!

þriðjudagur, október 18, 2005

Klukk

Var að sjá að hún Edda var víst búin að klukka mig fyrir löngu síðan í kommenti undir De-Lux færslunni. Fyrir þá fáu sem ekki vita þá á maður að skrifa fimm tilgangslausar staðreyndir um sig ef maður er klukkaður á blogginu.

Nú reyni ég að grafa upp gamlar og nýjar syndir...

1) Ég glími við króníska hræðslu við geitunga en hef samt aldrei verið bitinn af geitungi (sjö, níu, þrettán). Vil meina að viðbrögð mín séu sneggri en þeirra. Náði einu sinni drottningu eftir klukkutíma slag með 3/4 úr hárlakksbrúsa og golfkylfu (driver). Herbergið var tilbúið undir tréverk á eftir.

2) Ég lærði að segja Saab og Volvo á sama tíma og ég lærði að segja mamma og pabbi. Bíladellan er því meðfæddur fæðingargalli sem ekkert verður gert við.

3) Ég er afskaplega heitfengur. Klæddi mig þó upp í úlpu, húfu og hanska til að keyra Reykjanesbrautina í janúar með blæjuna niðri.

4) Ég þekki fáa með jafn schizophrenískan tónlistarsmekk og sá sem ég er með. Á winamp playlistanum mínum þessa stundina eru Nine Inch Nails, Backstreet Boys og Hemmi Gunn hlið við hlið. Það sem er jafnvel enn skrýtnara er að ég virðist læra þessa dellu alla utanað.

5) Ég veit meira um naglahirðu en flestar miðaldra konur. Þrjár mismunandi tegundir af sandpappír, tvær misgrófar naglaþjalir, ólífuolía, naglalím og gervineglur úr borðtenniskúlum voru ómissandi fylgihlutir á margra ára löngu tímabili sem einkenndist af klassísku gítarnámi.

Þá vitið þið það. Mér finnst nú hálfhommalegt að vera að klukka en ég er að hugsa um að klukka hagfræðirykið hann Úlf hinum megin við Atlantshafið.

Haustþýskan í München

Síðustu tvær vikur er búið að vera einstaklega fallegt haustveður í München: Stillt, bjart og þægilegur hiti. Eftir mikinn pönnukökubakstur Ingibjargar skutumst við á sunnudaginn í síðustu viku niður að Starnbergvatni ásamt fleirum í síðustu lautarferð ársins. Nýttum einnig birtuna og litina til að taka myndir í Dressmann kataloginn fyrir næsta haust.

mánudagur, október 03, 2005

Kóngsins Köben

Þann 23. september síðastliðinn fórum við til Kaupmannahafnar. Þetta var sem sagt daginn eftir Oktoberfest og ég verð nú að segja að ég mæli nú ekki endilega með því að fara í flug daginn eftir bjórdrykkju. En við lentum sem sagt í Köben um hádegi, innrituðum okkur á hótelið og héldum niður í bæ. Þar fundum við okkur útikaffihús þar sem við settumst niður í góða veðrinu, 20 stiga hita og sól, og fengum okkur smörrebröd.
Um kvöldið var okkur boðið í mat til Rúnu frænku og fjölskyldu þar sem boðið var upp á fylltar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum, mozzarella og fersku basil, mmmmm rosa gott. Seinna um kvöldið hittum við síðan vini okkar Helga og Vallý.
Á laugadeginum hittum við svo Unni og Guðjón, foreldra Magga, og röltum með þeim um borgina í sama góða veðrinu og deginum áður. Um kvöldið buðu þau svo til kvöldverðar á steikhúsi í Nýhöfninni, þar sem við fengum okkur fisk í forrétt og gómsætar steikur í aðalrétt.
Um hádegi á sunnudeginum var svo haldið heim á leið, ég til Þýskalands en Maggi til Íslands. Þar dvelur Maggi fram á næsta föstudag, verður þá hjá mér í viku og heldur svo til Bandaríkjanna í 2 vikur. Verð nú að segja að það er nú svolítið tómlegt hérna þegar hann er ekki, sérstaklega þegar ég er hvorki í skóla né vinnu á daginn. En ég læt mér nú samt ekkert leyðast, er á fullu að reyna að leita mér af vinnu og hef svo eitthvað aðeins verið að dunda mér að vinna smá hérna heima.

Oktoberfest 2005

Nú fer Oktoberfest senn að ljúka og verða margir Munchenarbúar vafalaust fegnir. Einmitt í þessum töluðu orðum standa nokkrir menn hér úti á götu í Lederhosen og syngja fyrir íbúa. Hátíðinni líkur sem sagt í kvöld eftir að hafa staðið yfir í 3 vikur.
Að sjálfsögðu lét Íslendingafélagið sig ekki vanta á hátíðina og fórum við saman c.a. 20 manns flest uppábúin í þjóðbúning Bæverja, Lederhosen og Dirndl. Það var að vonum mikil stemming enda kunna nú íslendingar yfirleitt að skemmta sér og öðrum. Íslendingafélagið fór sem sagt tvisvar, þann 22. september síðastliðinn og þann 27. þar á eftir bauð svo Konsúllinn öllum íslendingunum sem búa hér í Munchen og nágrenni. Það var mjög flott boð, 2 lítrar af bjór á mann, hálfur kjúklingur, fullt af brauðkringlum, ostum, grænmeti og fleira. Sendiherran, Ólafur Davíðsson lét sig ekki vanta og mætti hann ásamt syni sínum og virtust þeir báður skemmta sér alveg konunglega. Hann og Konsúllinn voru stórhrifnir af uppátæki okkar íslendinga að mæta í Lederhosen og Dirndl.
Að sjálfsögðu þurftu svo íslensku karlmennirnir aðeins að sýna sig og syngja íslenska ættjarðarsöngva, raddað, við misgóðar undirtektir. Annars voru bæði kvöldin bara mjög vel heppnuð og allir skemmtu sér vel.