Í fréttum er þetta helst

þriðjudagur, október 18, 2005

Klukk

Var að sjá að hún Edda var víst búin að klukka mig fyrir löngu síðan í kommenti undir De-Lux færslunni. Fyrir þá fáu sem ekki vita þá á maður að skrifa fimm tilgangslausar staðreyndir um sig ef maður er klukkaður á blogginu.

Nú reyni ég að grafa upp gamlar og nýjar syndir...

1) Ég glími við króníska hræðslu við geitunga en hef samt aldrei verið bitinn af geitungi (sjö, níu, þrettán). Vil meina að viðbrögð mín séu sneggri en þeirra. Náði einu sinni drottningu eftir klukkutíma slag með 3/4 úr hárlakksbrúsa og golfkylfu (driver). Herbergið var tilbúið undir tréverk á eftir.

2) Ég lærði að segja Saab og Volvo á sama tíma og ég lærði að segja mamma og pabbi. Bíladellan er því meðfæddur fæðingargalli sem ekkert verður gert við.

3) Ég er afskaplega heitfengur. Klæddi mig þó upp í úlpu, húfu og hanska til að keyra Reykjanesbrautina í janúar með blæjuna niðri.

4) Ég þekki fáa með jafn schizophrenískan tónlistarsmekk og sá sem ég er með. Á winamp playlistanum mínum þessa stundina eru Nine Inch Nails, Backstreet Boys og Hemmi Gunn hlið við hlið. Það sem er jafnvel enn skrýtnara er að ég virðist læra þessa dellu alla utanað.

5) Ég veit meira um naglahirðu en flestar miðaldra konur. Þrjár mismunandi tegundir af sandpappír, tvær misgrófar naglaþjalir, ólífuolía, naglalím og gervineglur úr borðtenniskúlum voru ómissandi fylgihlutir á margra ára löngu tímabili sem einkenndist af klassísku gítarnámi.

Þá vitið þið það. Mér finnst nú hálfhommalegt að vera að klukka en ég er að hugsa um að klukka hagfræðirykið hann Úlf hinum megin við Atlantshafið.

2 Comments:

At október 20, 2005 12:22 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég er afspyrnu feginn að sjá að ég er ekki eini karlmaðurinn með króníska geitungahræðslu. Ég hef heldur ekki verið bitinn, þetta eru bara illa innrætt ógeðsleg kvikindi og hana nú.

 
At október 20, 2005 1:12 e.h., Blogger Maggi said...

Þjáningarbróðir... fyrsta skrefið er að viðurkenna það.

 

Skrifa ummæli

<< Home